Vítamín og steinefni

Fróðleikur um vitamin

Vítamín eru lífræn efnasambönd sem eru okkur lífsnauðsynleg. Við þurfum þau í mjög litlum skömmtum en ef við fáum ekki nóg af hverju og einu þeirra koma fram hörguleinkenni.

Við fáum vítamínin úr fæðunni og einnig getum við tekið þau inn sem bætiefni. Ef fólk tekur inn vítamín í töfluformi ætti það að athuga að taka þau inn með mat þar sem við þurfum efni úr fæðunni til að nýta vítamínin.

Vítamínin eru ýmist vatns- eða fituleysanleg. Vatnsleysanleg vítamín stoppa aðeins í um 4 til 24 stundir í líkamanum og það magn sem við ekki nýtum skolast út með þvagi.

Fituleysanlegu vítamínin geta geymst í fituvefjum líkamans og ef þeirra er neytt í of stórum skömmtum safnast þau fyrir í líkamanum. Samkvæmt bókinni ,,Bætiefnabiblían” geta tilbúin fituleysanleg vítamín valdið eituráhrifum en ekki þau sem koma úr náttúrunni, jafnvel þótt þeirra sé neytt í stórum skömmtum.

B og C vítamín eru vatnsleysanleg og þarf því að neyta þeirra daglega. A, D, E og K vítamín eru fituleysin. Hægt er þó að fá þau í vatnsleysanlegri útgáfu og er ráðlegt fyrir fólk sem er á fiturýru mataræði að taka þau inn.

Vítamín skal geyma á köldum og dimmum stað. Eftir að vítamínglas er opnað geymist það í allt að tólf mánuði.

Pin It on Pinterest

Share This