Andoxunarefni

Andoxunarefni er samheiti yfir náttúruleg efni sem vernda líkamann gegn sindurefnum eða þess sem kallast á ensku “free radicals”.

Þessi sindurefni eru atóm eða flokkur atóma sem hafa eina eða fleiri óparaðar rafeindir. Sindurefnin geta skaðað lifandi frumur, veikt ónæmiskerfið og leitt til myndunar sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma og krabbameins. Einnig hefur verið talað um að sindurefnin séu þau efni sem leggi grunninn að öldrun líkamans.

Andoxunarefni gera sindurefnin hlutlaus og koma þannig í veg fyrir skaða af þeirra hálfu. Líkaminn sér okkur fyrir ákveðnum ensímum sem gegna þessu hlutverki og einnig fáum við þessi andoxunarefni úr ávöxtum, grænmeti, korni, baunum, hnetum og jurtum.

Til andoxunarefna teljast til dæmis A-vítamín, beta-karotín og önnur karotín, flavanoids, C og E vítamín, selen og zink. Annað öflugt andoxunarefni er hormónið melatonín. Einnig eru ákveðnar jurtir sem hafa eiginleika andoxunarefna.

Til að vinna gegn oxun er best að auka neyslu á ferskum ávöxtum og grænmeti þar sem rannsóknir hafa sýnt að andoxunarefni sem koma beint úr náttúrunni verka betur en andoxunarefni sem tekin eru sem fæðubótarefni, en þó er hægt að taka þau inn aukalega.

Ef taka á inn andoxunarefni í formi fæðubótarefna er mikilvægt að taka frekar litla skammta af ólíkum andoxunarefnum heldur en stóra skammta af einni tegund.

Rannsóknir á andoxunarefnum hafa meðal annars bent til að E-vítamín geti minnkað hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum og beta-karótín vinnur gegn myndun krabbameinsfrumna.

Kalíum (Potassíum)

Steinefnið kalíum gegnir nokkrum mikilvægum hlutverkum í líkama okkar. Það heldur blóðþrýstingnum og vökvamagninu í jafnvægi, stuðlar að réttri virkni vöðva og að frumur líkamans starfi rétt.

Kalíum starfar ekki eitt og sér í líkamanum, heldur í samvinnu við natríum, kalk og magnesíum. Það þarf að vera jafnvægi á milli þessara fjögurra steinefna til að þau starfi rétt og ofgnótt af einu getur leitt til ónægs magns af öðru. Best er að fá þessi steinefni í gegnum fæðuna, en séu þau tekin inn sem bætiefni skal gæta þess að taka inn rétt magn, því það er hægt að innbyrða of mikið af þeim.

Það eru nokkrir þættir sem geta leitt til skorts á kalíum. Neysla mjög unninnar matvöru og einhæft mataræði getur orsakað kalíumskort. Óhófleg neysla lakkríss veldur kalíumskorti og hafa þarf í huga að lakkrís er stundum notaður sem lyf og þeir sem það gera verða að gæta að kalíummagninu. Ýmiss konar lyf draga úr kalíummagni líkamans, svo sem þvagræsi- og laxerandi lyf, cortesone, asprín, hjartalyf, sterar og sum lyf við lifrarsjúkdómum.

Kalíumskortur getur leitt til kvíða, pirrings, reiði og þunglyndis. Hann getur valdið svefnleysi, harðlífi, nýrnasteinum og of háu sýrustigi líkamans. Einnig getur hann valdið bjúgmyndun og þar af leiðandi höfuðverk, sársauka í augum, mikilli streitu og þyngdaraukningu hjá þeim sem eru með skjaldkirtilssjúkdóma. Þar sem kalíum er geymt í vöðvunum og vinnur með þeim, getur skorturinn leitt til vöðvakrampa, stirðleika, vöðvaþreytu og óróleika í vöðvum.

Nægileg neysla kalíums getur unnið gegn hjartasjúkdómum, hjartaáfalli, blóðsykurskorti og offitu.

Sumir telja að mikil saltneysla valdi hækkandi kalíummagni í líkamanum, þó eru þær upplýsingar óljósar og fólk sem aldrei neytir salts reynist oft með hátt magn kalíums. Það er samt ljóst að nokkur atriði geta ýtt undir kalíummagnið, það eru hátt aldosteron hormón sem kemur fram við streitu eða reiði, eitraðar málmtegundir, sink- og magnesíum skortur, auk saltneyslu.

Besta leiðin til að innbyrgða kalíum er í gegnum fæðu, þó auðvitað megi taka það inn sem bætiefni. Nokkrar fæðutegundir eru ríkar af kalíum eins og bananar, kartöflur með hýði, avókadó, sveskjur, appelsínur, ferskjur, tómatar, rúsínur, ætiþistlar, spínat, sólblómafræ, möndlur, cantaloupe melónur, lax og kjúklingur.

Eðlilegt er að innbyrgða a.m.k. 4700 mg af kalíum á dag en ef þú neytir natríumríkrar fæðu þarftu að auka skammtinn af því. Eiturverkanir vegna ofneyslu geta komið fram sé 18000 mg neytt á dag en það getur valdið hjartastöðvun. Mjög litlar líkur eru á að einstaklingi takist að innbyrgða slíkt magn kalíums.

Pin It on Pinterest

Share This